Hvað er Matardagbókin?

Matardagbókin er rafrænt dagbókarkerfi sem gerir þér kleift að halda utan um þyngd þína og alla neyslu. Innbyggður í kerfið er gagnagrunnur sem inniheldur rúmlega 2500 matvörutegundir en svo geta notendur einnig bætt í þann grunn.

Kerfið í kringum Matardagbókina inniheldur alls kyns tól til að auðvelda fólki að léttast en rauði þráðurinn í gegnum allt kerfið er hitaeiningatalning.  Þú gefur kerfinu upp hæð, þyngd og aldur og segir því hversu mikið þú vilt létta þig á viku (frá 0 upp í 1000 grömm). Kerfið reiknar svo út fyrir þig hversu margar hitaeiningar þú "mátt" borða á dag og heldur utan um allan þann mat og drykk sem þú lætur ofaní þig.  Ef þú heldur þig við hitaeiningarnar sem kerfið gefur þér upp og borðar sæmilega heilsusamlega (ekki eingöngu súkkulaði og kók) eru afskaplega stórar líkur á því að þú grennist, því grunnformúlan er ekki flókin - ef þú neytir færri hitaeininga yfir daginn en líkaminn þarf á að halda mun hann bæta upp fyrir það með því að ganga á fituforða sinn.

Höfundur kerfisins léttist sjálfur um 30 kíló á einu ári með dyggri aðstoð matardagbókar.